Erlent

Abbas boðar til þjóðaratkvæðagreiðslu

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, boðaði í dag til þjóðaratkvæðagreiðslu síðla í júlí þar sem meðal annars verður tekin afstaða til þess hvort viðurkenna skuli tilverurétt Ísraelsríkis. Atkvæðagreiðslan er umdeild meðal Palestínumanna.

Gengið verður til atkvæðagreiðslunnar 26. júlí næstkomandi. Þessi ákvörðun Abbas mun að öllum líkindum auka enn á ófriðinn á sjálfsstjórnarsvæðunum en leiðtogi Hamas, sem stýrir heimastjórninni, hefur farið þess á leit við Abbas að ekki verði kosið um þetta málefni.

Sjö meðlimir sömu fjölskyldunnar sem féllu í árás Ísraelshers á strönd á Gaza-svæðinu í gær voru bornir til grafar í dag. Mörg þúsund Palestínumenn voru viðstaddir. Abbas sagði árásina glæp sem jafnaðist á við þjóðarmorð og hvatti alþjóðsamfélagið til að skerast í leikinn.

Abbas lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og voru götur Gaza-borgar og Ramallah nánast auðar í morgun og allar verslanir lokaðar í dag. Ísraelsmenn segja árásina í rannsókn.

Hamas-samtökin rufu 16 mánaða vopnahlé vegna atburðanna í nótt þegar þeir skutu flugskeytum á ísraelskt landssvæði. Engan sakaði.

Átökin á Gaza-ströndinni hafa magnast eftir því sem liðið hefur á daginn og varð einn leiðtogi öryggissveita Fatha-samtaka Abbas forseta á milli þegar til skotbardaga kom milli Fatah- og Hamas-liða. Hann var þegar fluttur af vettvangi en ekki er vitað hvort hann særðist. Til átaka kom þegar verið var að bera foringja í öryggissveitum Fatah til grafar en hann féll þegar reynt var að ræna honum snemma í morgun. Fatah-liðar segja Hamas-menn standa að baki morðinu og mættu ekki til fundar við Ismail Hanieyh, forsætisráðherra, síðdegis í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×