Erlent

Slagsmál á bólivíska þinginu

Til handalögmála kom á bólivíska þinginu fyrir helgi þegar stjórn og stjórnarandstaða deildu um löggjöf um vegaþjónustu sem stjórn landsins vill fella úr gildi. Stjórnarandstöðuþingmaður var ítrekað laminn í höfuðið áður en yfir lauk.

Lögin sem deilt er um tryggja að vegum landsins sé haldið í eins góðu ástandi og mögulegt er miðað við harðgert landslag. Átök brutust út þegar einn stjórnarandstöðuþingmaður úr röðum sósíal demókrata, Walter Adriazola, gagnrýndi ákvörðun stjórnarinnar harðlega og stjórnarþingmenn svörðu með því að kasta í hann samavöðluðum pappír. Adriazola svaraði fyrir sig með að hella vatni yfir þingmennina og þá var ekki aftur snúið. Adriazola var þá laminn ítrekað í höfuðið af einum stjórnarþingmanni áður en þingmenn beggja fylkinga náðu að skilja þá að. Adriazola sagði þetta sýna að þeir sem væru ekki í takt við stjórn landsins ættu ekki von á góðu.

Þingheimur á nú eftir að ákveða hvað verði gert í framtíðinni til að koma í veg fyrir átök sem þessi á þingi og hvernig eigi að refsa þeim sem láti hnefana tala þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×