Erlent

Sakaðir um að hafa barið Zarqawi til dauða

Bandarískir hermenn eru sakaðir um að hafa barið al-Zarkawi, leiðtoga al-Kæda í Írak, til dauða. Samtökin hóta stórfelldum árásum í landinu til að hefna leiðtoga síns.

Al-Zarqawi hefur verið heilinn á bakvið árásir al-Kæda í Írak og Bandaríkjaher lagði allt kapp á að koma honum fyrir kattarnef, en það er ekki þar með sagt að engu máli skipti hvernig það hafi verið gert. Talsmenn hersins fullyrða að Zarqawi hafi látist af völdum sára sem hann hlaut eftir sprengjuárás á vígi árásarmanna.

Íraki sem býr í grennd við árásarstaðinn fullyrðir hins vegar að hermenn hafi barið Zarqawi til dauða. Hann hafi séð hvar hermenn börðu og spörkuðu í hann uns ekkert lífsmark hafi verið eftir. Krufnungu á líki hans er lokið, en niðurstöðurnar liggja ekki enn fyrir.

Í dag hótuðu svo al-Kæda í Írak hefndum. Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu herskárra múslima er fullyrt að stórfelldar árásir séu í vændum og óvininum verði ekki vært á næstunni. Þá segir þar einnig að al-Kæda í Írak hafi endurnýjað bandalag sitt við Ósama Bin Laden, þó að ekki hafi verið ákveðið hver taki við af Zarqawi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×