Erlent

Írönum ekki vel tekið

Meira en þúsund þýskir gyðingar mótmæltu kröftuglega á götum Nurnberg í dag, þar sem Íranar spiluðu fyrsta leik sinn á HM. Lögreglan í Frankfurt þurfti að loka nokkrum hverfum í borginni vegna óláta eftir leik Englendinga og Paragvæ í gær.

Viðbúnaður lögreglunnar í Nurnberg var í hámarki fyrir leik Írana og Mexíkóa í dag. Írönum hafa ekki beinlínis beðið hlýjar móttökur í Þýskalandi, enda hópur Þjóðverja sár út í forseta Írans fyrir að gera ítrekað lítið úr helförinni. Stór hópur þýskra gyðinga og stjórnmálamanna af vinstri vængnum boðaði til fjöldamótmæla fyrir leikinn í dag.

Varaforseti Írans var viðstaddur leikinn í dag og jafnvel hefur verið rætt um að forsetinn sjálfur, Mahmoud Ahmedinajad mæti á næstu leiki.

Þá fyrst þurfa lögregluyfirvöld í Nurnberg líklega að fara að biðja bænirnar sínar.

En stuðningsmenn Írans og Mexíkó létu mótmælin ekki aftra sér og skemmtu sér konunglega í aðdraganda leiksins, enda sól og blíða á götum Nurnberg í dag.

Það er þó vonandi að þeir fái sér aðeins minna í tána en stuðningsmenn enska liðsins, sem voru margir með ólæti eftir sigurinn á Paragvæ í gær.

Glerflöskum og öðru lauslegu rigndi yfir götur Frankfurt og lögregla þurfti hreinlega að loka nokkrum hverfum um tíma í vegna þess í gærkvöldi.

Meira en tuttugu manns voru handteknir í borginni, Englendingar, Pólverjar og Þjóðverjar, flestir vegna ofurölvunar. Það verður þó líklega að teljast nokkuð vel sloppið með hliðsjón af því að fjörutíu þúsund Englendingar eru komnir til borgarinnar til að styðja sína menn, auk þúsunda til viðbótar frá Póllandi og Svíþjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×