Erlent

Átti að losna fljótlega úr Guantanamo-búðunum

MYND/Reuters

Einn þremenninganna sem hengdu sig í Guantanamo-fangabúðunum um helgina átti að losna úr prísundinni fljótlega, en vissi ekki af því sjálfur. Nöfn þremenninganna, sem hengdu sig með vafningi úr rúmfötum og fatnaði, voru gerð opinber í gær. Einn þeirra, sádinn al-Habardi al-Utaybi, átti að losna úr fangabúðunum innan skamms.

Lögfræðingur sem fer með mál fanga í Guantanamo segir að al-Utaybi hafi verið einn eitt hundrað og fjörutíu fanga sem búið hafi verið að ákveða að sleppa úr fangabúðunum. Hann hafi hins vegar verið talinn í andlegu jafnvægi og því hafi verið ákveðið að segja honum ekki að hann væri að losna fyrr en ljóst væri hvert hann færi. Sá hátturinn sé yfirleitt hafður á, nema algjörlega nauðsynlegt þyki að láta fanga vita að hann sé að losna. Helgin sýndi svo ekki varð um villst að svo var í þessu tilviki, en það þýðir lítið að vera vitur eftir á.

Líklega hefur al Utaybí ekki haft hugmynd um að hann væri að losna úr prísundinni, því að sögn lögfræðingsins er föngum við búðirnar iðulega tjáð að þeir losni ekki fyrr en um fimmtugt, eða þaðan af síðar. Örvæntingin bar hann ofurliði og afleiðingarnar voru þessar.

Talsmenn Bandaríkjahers líta málið öðrum augum og um helgina hefur hver hershöfðinginn af öðrum kallað sjálfsmorðin um helgina hernaðaraðgerð, eða auglýsingabrellu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×