Erlent

Engin vettlingatök

Tveir bræður sem handteknir voru í áhlaupi Lundúnalögreglunnar á dögunum vegna gruns um að þeir hygðu á hermdarverk lýstu í dag reynslu sinni. Þeir segjast hafa sætt fádæma fautaskap og haldið að þeirra síðasta stund væri runnin upp.

Bræðrunum Abdul Koyair og Mohammed Kahar brá heldur betur í brún þegar þeir voru rifnir upp úr rúmum sínum í upphafi þessa mánaðar. Fyrst héldu þeir að ræningjar hefðu brotist inn en svo kom í ljós að þar var á ferðinni sérsveit lögreglunnar sem hafði fengið ábendingu um að hryðjuverk væru í undirbúningi í húsi þeirra í Lundúnum. Mohammed átti sér einskis ills von þegar hann heyrði allt í einu skothvell. Hann heyrði bróður sinn öskra og varð þá ljóst að hann hafði orðið fyrir skoti. Því næst sparkaði lögregluþjónn í andlitið á honum og sagði honum að halda sér saman.

Næstu vikuna sættu bræðurnir linnulausum yfirheyrslum en svo var þeim sleppt án ákæru enda fundust engin merki um að á heimili þeirra væru hermdarverk í bígerð.

Í kjölfar blaðamannafundar bræðranna gaf Lundúnalögreglan út yfirlýsingu þar sem hún baðst afsökunar á að hafa valdið þeim sársauka og sálartjóni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×