Erlent

Útgöngubann á miðnætti

MYND/AP

Útgöngubann tekur gildi í Írak á miðnætti. Írakska stjórnin hefur boðað hertar aðgerðir gegn ofbeldisverkum í helstu borgum landsins og taka yfir fjörutíu þúsund hermenn þátt í aðgerðinni.

Varðstöðvum, skriðdrekum og brynvörðum bílum verður fjölgað til muna í Bagdad, höfuðborg Íraks, í dag og hefur öryggi í borginni aldrei verið jafn strangt síðan Bandaríkjamenn ruddust inn í landið árið 2003. Bandaríski herinn hefur nokkrum sinnum áður gripið til slíkra aðgerða án þess að það hafi dregið úr ofbeldi í borginni. Óttast er að al-Kaída efli árásir til að hefna leiðtoga síns, al-Zarqawis, sem felldur var í síðustu viku. Al Mujahid, arftaki Zarqawis, hefur að sögn svarið þess eið að vinna sigur á krossförum og sjíum í Írak. Og íbúar í Írak fundu strax í morgun fyrir breytingunum, fleiri ökutæki voru stöðvuð en venjulega og leitað í þeim, og miklar umferðartafir urðu vegna þess. Embættismenn eru bjartsýnir á að aðgerðirnar beri árangur en þrátt fyrir hert öryggi sprungu tvær sprengjur í borginni í morgun. Fjórir féllu og sjö særðust þegar bílsprengja sprakk í norðurhluta borgarinnar í morgun, og einn slasaðist þegar vegsprengja sprakk í nágrenni varðstöðvar í borginni. Bush Bandaríkjaforseti segir Bandaríkjaher eiga mikið verk óunnið í landinu og að herinn verði áfram þar til friður kemst á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×