Erlent

Grunaður um að hafa rænt barnungum stúlkum

MYND/AP

Belgíska lögreglan hefur ákært mann um fertugt fyrir að hafa rænt tveimur skólastúlkum, sjö og tíu ára. Maðurinn hefur tvívegis setið í fangelsi fyrir að hafa misnotað börn. Óttast er um afdrif stúlkanna sem hurfu á föstudagskvöldið.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Belgíu og segja margir það minna um margt á hvarf tveggja stúlkna í sömu borg, Liege, fyrir áratug. Síðar kom í ljós að barnaníðingurinn Marc Dutroux hafði rænt stúlkunum nálægt heimili þeirra og ári síðar fundust lík þeirra.

Það var á föstudaginn sem Nathalie Mahy, tíu ára, og Stacy Lemmens, sjö ára, tóku þátt í götuveislu sem haldin var í hverfi þeirra. Stúlkurnar eru stúpsystur. Þegar var byrjað að leita stúlknanna á laugardaginn og voru sporhundar notaðir og allt tiltækt lögreglulið. Hvorki hefur fundist tangur né tetur af stúlkunum og óttast íbúar Liege nú hið versta.

Lögreglu barst síðan fyrr í vikunni tilkynning um að sést hefði til manns að nafndi Abdallah Ait Oud í námunda við stúlkurnar skömmu áður en þær hufu. Sá hefur tvívegis verið dæmdur í fangelsi fyrir að hafa misnotað börn. Þegar var birt mynd í fjölmiðlum að Ait Oud sem er þrjátíu og níu ára. Í gær gaf hann sig svo fram við lögreglu og hefur verið ákærður fyrir að hafa átt þátt í hvarfi stúlknanna þó hann neiti því staðfastlega.

Stúlknanna er enn leitað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×