Erlent

Íranar ekki samvinnuþýðir

f.v. Angelo Gabriele De Ceglie, sendifulltrúi Ítala hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni, og Ali Asghar Soltanieh, sendifulltrúi Írana.
f.v. Angelo Gabriele De Ceglie, sendifulltrúi Ítala hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni, og Ali Asghar Soltanieh, sendifulltrúi Írana. MYND/AP

Helsti sendifulltrúi Bandaríkjamanna hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni segir Írana enn neita að veita stofnuninni allar upplýsingar um kjarnorkuáætlun sína. Sendifulltrúi Írana segir stjórnvöld í Teheran skoða vandlega tilboð Vesturveldanna til lausnar deilunni.

Fyrr í mánuðinum lögðu stórveldin tillögu fyrir Írana sem tryggir þeim ýmis fríðindi í skiptum fyrir að þeir leggi kjarnorkuáætlun sína á hilluna. Flest ríkin krefjast þess einnig að þeir hætti auðgun úrans en óvíst er hvort Kínverjar og Rússar vilji ganga svo langt.

Ali Asghar Soltanieh, sendifulltrúi Írana hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni, sagði í morgun að tillagan væri enn til skoðunar og sagðist Írana vonast eftir friðsamlegri lausn á deilunni.

Stjórn kjarnorkumálastofnunarinnar fundar í dag um málið í Vín í Austurríki. Þar eru til umræðu tvær skýrslu Mohameds ElBaradei, yfirmanns stofnunarinnar, þar sem gerð er grein fyrir því hvernig samskipti við Írana ganga fyrir sig.

Sendifulltrúi Bandaríkjamanna í stjórn stofnunarinnar segir Írana enn þrjóskast við og neita að veita allar upplýsingar um kjarnorkuáætlunina. Hann hvatti stjórnvöld til að ganga að tilboði stórveldanna og varaði við aðgerðum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ef tilboðið yrði ekki samþykkt.

Ali Khamenei erkiklerkur í Íran sagði í morgun að Íranar myndu ekki láta undan þrýstingi vesturveldanna sem vilji fá stjórnvöld í Teheran til að leggja kjarnorkuáætlun sína á hilluna. Verkefninu verði framhaldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×