Erlent

Alkatiri segir af sér

Afsagnar Alkatiris var krafist á föstudaginn og um helgina.
Afsagnar Alkatiris var krafist á föstudaginn og um helgina. MYND/AP

Forsætisráðherra Austur-Tímor hefur sagt af sér embætti svo hægt verði að tryggja frið í landinu. Þetta tilkynnti hann óvænt á blaðamannafundi í höfuðborginni Dili í morgun. Forsætisráðherrann fráfarandi hefur verið gerður ábyrgur fyrir mannskæðum átökum í landinu síðustu vikur.

Miri Alkatiri, forsætisráðherra, hefur verið sagður bera ábyrgð á því ófriðarbáli sem kviknaði í höfuðborginni fyrir nokkrum vikum. Í mars rak hann sex hundruð hermenn fyrir það að hafa farið í verkfall til að knýja fram betri kjör. Þá kom til átaka á götum úti sem kostuðu minnst 30 manns lífið. Auk þess hafa 15 þúsund manns þurft að flýja heimili sín. Átökin eru þau mannskæðustu frá því landið fékk sjálfstæði fyrir sjö árum.

Hátt í þrjú þúsund friðargæslumenn frá Ástralíu komu þá til landsins. Forsætisráðherrann fráfarandi hefur hingað til ekki ljáð máls á því að víkja og setið sem fastast. Það var svo í síðustu viku sem Xanana Gusmao, forseti landsins, fór þess á leit við Alkatiri að hann segði af sér ellegar ætlaði Gusmao sjálfur, sem nýtur mikilla vinsælda, að víkja. Þá hótun dró hann þó til baka. Í gær sagði svo Jose-Ramos Horta utanríkisráðherra af sér.

Auk alls þessa tóku þúsundir manna þátt í mótmælagöngu í gær þar sem afsögn Alkatiris var krafist. Hann virðist þá hafa séð sæng sína uppreidda og ákveðið að víkja. Það er svo stjórnarflokks landsins að velja eftirmann hans í embætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×