Nú fyrir stundu greindi fréttavefur BBC frá því að ensku meistararnir Chelsea væru búnir að senda FIFA kæru vegna meintra ólöglegra viðræðna spænska félagsins Real Madrid við hollenska kantmanninn Arjen Robben.
"Við höfum farið þess á leit við FIFA að málið verði rannsakað, því forráðamenn Real hafa ekki reynt að setja sig í samband við okkur til að fá leyfi til að ræða við leikmanninn - og þar fyrir utan höfum við tekið það skýrt fram margsinnis að Arjen Robben er ekki til sölu," sagði Peter Kenyon, stjórnarformaður Chelsea.