Fótbolti
Roberto Donadoni tekur við af Lippi
Ítalska knattspyrnusambandið gekk í dag frá ráðningu Roberto Donadoni í stöðu landsliðsþjálfara Ítala í stað Marcello Lippi sem sagði af sér á dögunum. Donadoni hefur ekki mikla reynslu af þjálfun, en var síðast með lið Livorno á Ítalíu og stýrði liðinu í sjötta sæti í deildinni. Hann er aðeins 43 ára gamall og stýrði áður Lecce og Genoa. Donadoni gerði garðinn frægan með liði AC Milan sem leikmaður og var í landsliðinu sem hlaut bronsið á HM árið 1990.