Erlent

Átök Ísraelshers og skæruliða Hizbollah-samtakanna ekki í rénun

Hafi einhver búist við að átök Ísraelshers og skæruliða Hizbollah-samtakanna væru í rénun þá skjátlast hinum sama hrapalega. 30 létu lífið í árásum Ísraela á Líbanon í dag, þar á meðal níu manna fjölskylda frá þorpinu Aitaroun en sprengja hafnaði á húsi þeirra.

Yfirmenn Ísraelshers útiloka ekki að landherlið ráðist inn í Líbanon þótt dregið hafi úr eldflaugaárásum Hizbollah yfir landamærin. 237 Líbanir og 13 Ísraelar liggja í valnum eftir að hildarleikurinn hófst en upptök hans má rekja til þess að Hizbollah-menn tóku tvo ísraelska hermenn í gíslingu í síðustu viku.

Valgerður, utanríkisráðherra, er hugsi yfir ástandinu en á síður von á að íslensk stjórnvöld bregðist sérstaklega við.

Friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna hefur verið í Líbanon undanfarin ár en þörf er á mun öflugra liði til að hafa eitthvað að segja eins og sakir standa. Það er að minnsta kosti skoðun framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Vandamálið er hins vegar að ákvörðunin er í höndum öryggisráðsins og Bandaríkjamenn, sem þar hafa neitunarvald, eru taldir líklegir til að verja hagsmuni Ísraela sem telja ótímabært að senda þangað slíkt lið. Eins og sakir standa er því ekkert útlit fyrir að ófriðnum linni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×