Erlent

54 falla í árás Ísraela á þorp í Líbanon

Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels segist munu leyfa hjálparstofnunum að fara inn í þorp í Líbanon, nálægt landamærunum við Ísrael, þar sem 54 létu lífið í loftárás í nótt. Þrjátíu og sjö þeirra sem létust voru börn. Evrópusambandið hvatti til þess skömmu fyrir hádegi að vopnahléi yrði komið á tafarlaust. Arababandalagið krefst þess að alþjóðleg rannsókn fari fram á árásinni á þorpið. "Þetta er þjóðarmorð," hrópaði fólk þegar fréttamenn komu í þorpið Qana í morgun. Flestir þeirra sem dóu höfðu leitað sér skjóls í kjallara húss þegar sprengja skall á því. Sjúkraflutningamenn leituðu uppi þá sem höfðu særst og enn var hægt að bjarga. Ein kona sagðist hafa misst þrjú börn. Talið er að enn sé fólk grafið undir rústunum. Flugskeytum Ísraela rigndi yfir þorpið klukkan eitt í nótt að líbönskum tíma. Ísraelar segja að hisbolla skæruliðar hafi endurtekið skotið flaugum inn í Ísrael úr þorpinu og því hafi þeir látið til skarar skríða. Dreifimiðum hafi verið varpað yfir þorpið og fólk þar hvatt til þess að fara burt. Sums staðar var fólk að grafa í rústunum með berum höndum í von um að finna ættingja og vini á lífi. Þorpið er í um 25 kílómetra frá landamærunum við Ísrael. Í um þriggja til fjögurra kílómetra fjarlægð frá landamærunum brutust út harðir bardagar í morgun milli landhers Ísraels og hesbolla. Ísraelar segja að hisbolla skæruliðar hafi skotið 47 katyusha flaugum inn í Ísrael í morgun, með þeim afleiðingum að tíu hafi særst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×