Erlent

Borgarastyrjöldin á Sri Lanka hafin á ný

Svo virðist sem borgarastyrjöldin á Sri Lanka sé hafin á ný að öllu leyti nema að nafninu til. Danir, Svíar og Finnar hafa ákveðið að kalla friðargæsluliða sína þar heim. Norðmenn hafa farið þess á leit við Íslendinga að þeir sendi fleiri menn til norrænu eftirlitssveitarinnar og eftir er að ákveða hvort orðið verður við þeirri ósk.

Uppreisnarmenn Tamíltígra réðust á þrjár herstöðvar í morgun sóttu inn á svæði þar sem stjórnarher landsins hefur hingað til ráðið lögum og lofum. Herinn segir tugi Tamíltígra hafa fallið. Vopnahlé hefur verið í gildi í landinu síðan 2002 en til átaka kom í síðustu viku vegna deilna um vatnsból á svæði þar sem búa fimmtíu þúsund manns. Loftárásir hersins á vígi Tamíltígranna héldu áfram í morgun, áttunda daginn í röð.



Sænska utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að draga alla friðargæsluliða sína frá Sri Lanka. Tamíltígrarnir kröfðust þess að friðargæsluliðar frá Evrópusambandinu yfirgæfu landið eftir að ESB ákvað að skilgreina Tamíltígrana sem hryðjuverkasamtök og frysta bankainnistæður þeirra. Danir og Finnar höfðu þegar tilkynnt um brotthvarf sinna manna. Norðmenn hafa farið þess á leit við Íslendinga að þeir sendi fleiri menn til norrænu eftirlitssveitarinnar og er nú í athugun að fjölga Íslendingum á Sri Lanka úr þremur í 10 til 12. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×