Erlent

Vill útrýma kjarnorkuvopnum

Borgarstjórinn í Hiroshima hvatti til þess í dag að öllum kjarnorkuvopnum yrði útrýmt. 61 ár er í dag liðið síðan kjarnorkusprengju var varpað á borgina.

45 þúsund manns söfnuðust saman í Friðar- og minningargarðinum í Hiroshima til að minnast kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima. Þeirra á meðal voru sumir þeirra sem lifðu árásina af en meira en 140 þúsund manns fórust í árásinni.

Þegar klukkan var stundarfjórðung yfir átta klingdi bjalla. Þá var 61 ár upp á mínútu frá því kjarnorkusprengjan sprakk í Hiroshima.

Tadatoshi Akiba, borgarstjóri í Hiroshima, hvatti japönsk stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi. Hann sagði að sem eina þjóðin til að verða fyrir kjarnorkuárás ættu Japanar að taka sér forystuhlutverk í að útrýma kjarnorkuvopnum.

Önnur minningarathöfn verður haldin á miðvikudag, sú til minningar um fórnarlömb kjarnorkusprengjunnar sem féll á Nagasaki. Árásin á Nagasaki var gerði þremur dögum eftir árásina á Hiroshima. Í þeirri árás létust 80 þúsund manns til viðbótar. Á miðvikudagskvöld verður kertum svo fleytt á Reykjavíkurtjörn til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×