Erlent

Börðust í návígi í Bekaa-dal

Franskir hermenn komu til Naqoura í Líbanon í morgun.
Franskir hermenn komu til Naqoura í Líbanon í morgun. MYND/AP

Skæruliðar Hizbollah börðust í návígi við sérsveitarmenn Ísraelshers í Bekaa-dal í Austur-Líbanon snemma í morgun. Að minnsta kosti einn hermaður féll. Herliðið var sent þangað til að koma í veg fyrir flutning vopna til skæruliðanna.

Til átaka hefur komið í Líbanon síða vopnahlé tók gildi á mánudaginn. Átökin í morgun eru þó þau mestu síðan þá. Að minnsta kosti einn hermaður féll og tveir særðust. Ísraelsher segist hafa sent sérsveitarmenn sína á svæðið til að koma í veg fyrir að vopnasending bærist til skæruliða Hizbollah frá Íran og Sýrlandi.

Sjónvarpsstöð á vegum Hizbollah greindi frá því að flogið hefði vereið með sérsveitarmennina á svæðið sem er um hundrað kílómetra norður af landamærunum að Ísrael. Hizbollah-skæruliðar hafi hins vegar hrundið sókn þeirra. Fréttir hafa borist af því að Ísraelar hafi skotið flaugskeytum á svæðið. Sagt er að sérsveitarmenn hafi beint athygli sinni að bænum Bodai vestur af Baalbek.

Nokkrum klukkustundum áður en til átakanna kom varaði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, við því að ástandið á jörðu niðri í Líbanon væri viðkvæmt.

Fimmtíu franskir hermenn eru nú komnir til hafnarborgarinnar Naqoura í Líbanon. Þeir eru fyrstu hermennirnir sem koma til landsins og verða hluti af alþjóðlegu gæsluliði á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Frakkar hafa lofað tvö hundruð hermönnum í lið sem á að telja fimmtán þúsund menn. Það virðist því ætla að reynast Sameinuðu þjóðunum erfitt að koma saman liði en búist var við töluvert fleiri hermönnum frá Frökkum. Aðrar Evrópuþjóðir hafa verið hvattar til að senda herlið en áætlað var að hægt yrði að senda þrjú þúsund og fimm hundruð hermenn til landsins hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×