Erlent

Óvænt hætt við ákæru

John Mark Karr á leið í réttarsal í gær.
John Mark Karr á leið í réttarsal í gær. MYND/AP

Saksóknari í Colorado í Bandaríkjunum hefur óvænt hætt við að ákæra John Mark Karr fyrir morðið á hinni sex ára gömlu barnafegurðardrottningu JonBenet Ramsey fyrir tíu árum. Erfðaefni úr Karr passaði ekki við það sem fannst á morðstaðnum.

Karr var handtekinn í Tælandi fyrir rúmum tveimur vikum. Þar játaði hann á sig morðið sem hefur valdið lögreglu og almenningi í Bandaríkjunum tölvuerðum heilabrotum og vakti á sínum tíma mikinn óhug. Karr var þegar framseldur til Bandaríkjanna. Þar sem hann átti að svara til saka fyrir morðið á hinni sex ára gömlu JonBenet Ramsey. Þessi vending í málinu mun að öllum líkindum valda frekari vandræðum en ýmsar sögusagnir fóru á kreik þegar morðið var framið og voru foreldrar stúlkunnar jafnvel sagðir hafa átt þátt í dauða hennar. Málið hefur því legið eins og mara á fjölskyldunni.

Það var svo í gærkvöldi sem handtökuskipun á hendur honum var felld úr gildi. Rannsókn leiddi í ljós að erfðaefni úr honum passaði ekki við það sem fannst á vettvangi morðsins.

Ættingjar JonBenet segja réttlætinu hafa verið fullnægt í þessum anga málsins þar sem ljóst sé að maðurinn hafi ekki verið á morðstaðnum þegar ódæðið var framið.

Í morgun hefur síðan komið í ljós að frá því í upphafi þótti lögreglumönnum frásögn Karr nokkuð sérkennileg og svo virtist sem hann hefði sjúklegan áhuga á morðmálinu, og því vaknaði sá grunur að hann hefði ekki framið morðið.

Karr mun áfram sitja í varðhaldi í Boulder í Colorado þar til hann verður framseldur yfirvöldum í Sonoma-sýslu í Kaliforníu þar sem hann á yfir höfði sér ákæru vegna vörslu barnakláms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×