Króatíski framherjinn Tony Kukoc sem leikið hefur með Milwaukee Bucks undanfarin fjögur ár, segir að hann muni líklega leggja skóna á hilluna á næstu dögum eða vikum. Kukoc er 38 ára gamall og er líklega þekktastur fyrir að leika með gullaldarliði Chicago Bulls sem vann titilinn á árunum 1996-98.
Kukoc er með lausa samninga hjá Milwaukee og segir nokkur lið hafa sett sig í samband, en hann vill ekki yfirgefa heimili sitt í Illinois fylki og segir því aðeins koma til greina að spila með Milwaukee áfram eða snúa aftur til Chicago Bulls - en þessi lið hafi ekki not fyrir sig. Því sé líklegt að hann muni hætta í sumar.
Kukoc var valinn í annari umferð af Chicago Bulls árið 1990, en hann gekk ekki í raðir liðsins fyrr en nokkru síðar. Hann var kjörinn besti sjötti maðurinn í NBA árið 1996 og hefur einnig spilað með Atlanta Hawks og Philadelphia 76ers.