Erlent

Pólverjar flykkjast til vinnu á Vesturlöndum

Dæmi eru um að pólskar mæður skilji börn sín eftir á munaðarleysingjahælum áður en þær halda til Vesturlanda í atvinnuleit. Margvísleg þjóðfélagsvandamál steðja að pólsku þjóðinni vegna útrásar vinnuafls þaðan til Vesturlanda.

Reuters-frétastofan hefur það eftir forstöðumanni munaðarleysingjahælis í þorpi suðaustur af varsjá, að fimm mæður og einn faðir hafi reynt að losa sig við börn sín á hælið upp á síðkastið. Þá hefur hjónaskilnuðum í þessu kaþólska landi fjölgað stórlega eftir að Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og pólskir þegnar fengu frjálsan aðgang að vinnumarkaði allra aðildarríkjanna. Einstæðum, fátækum mæðrum fer því ört fjölgandi í landinu.

Í sumum þorpum og héruðum er rjóminn af öllu ungu og miðaldra fólki farinn til starfa á Vesturlöndum og hefur skilið eftir börn sín hjá öfum og ömmum þannig að samfélagsuppbyggingin er orðin kolskökk og fjölskyldubönd eru að rakna upp.

Þessi flótti skýrist einkum af 15 prósenta atvinnuleysi í landinu. Talið er að allt að tvær milljónir Pólverja hafi freistað gæfunnar á Vesturlöndum frá því í hitteðfyrra, eða um fimm prósent þjóðarinnar en einhverjir eru snúnir heim aftur.

Pólverjum hefur vegnað misjafnlega á Vesturlöndum en sums staðar hafa þeir lent í óprúttnum vinnumiðlunum og vinnuveitendum og orðið undir í lífsbáráttunni með þeim afleiðingum að þeir hafa leiðst út í glæpi og eitulyf, eins og dæmi eru um í Bretlandi. Hlutfallslega mun Pólverjum hvergi hafa fjölgað jafn ört og mikið á Vesturlöndum og hér á landi og þykja þeir almennt gott vinnuafl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×