Erlent

Útlit fyrir að stjórn Schüssels sé fallin

Fyrstu spár birtar í austurrískum fjölmiðlum í dag.
Fyrstu spár birtar í austurrískum fjölmiðlum í dag. MYND/AP

Svo virðist sem stjórn Wolfgangs Schüssels, kanslara Austurríkis, sé fallin í þingkosningum sem fram fóru í landinu í dag. Kjörfundi lauk í landinu nú klukkan þrjú að íslenskum tíma og fyrstu spár benda til þess að sósíaldemókratar undir forystu Alfreds Gusenbaurs hafi naumt forskot á hægri flokk Schüssels, 36 prósent atkvæða á móti 35 prósentum.

Þetta þýðir að flokkur Schüssels hefur tapað sjö prósentum frá síðustu kosningum. Frelsisflokkurinn, sem er yst á hægri kantinum, stefnir í að fá þriðja mesta fylgið eða um tíu prósent og þar skammt á eftir koma Græningjar.

Hins vegar stefnir í að flokkur Jörgs Haiders, Bandalag um framtíð Austurríkis, sem verið hefur í stjórnarbandalagi með flokki Schüssels, fái aðeins í kringum fimm prósent atkvæða. Búist er við að bráðabirgðaniðurstöður kosninganna liggi fyrir um klukkan hálfsex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×