Erlent

Schüssel viðurkennir ósigur í þingkosningum

Wolfgang Schüssel, til hægri, óskar Alfred Gusenbauer til hamingu með sigurinn í kosningunum.
Wolfgang Schüssel, til hægri, óskar Alfred Gusenbauer til hamingu með sigurinn í kosningunum. MYND/AP

Wolfgang Schüssel, kanslari Austurríkis, viðurkenndi í dag að hægri flokkur hans hefði „líklega" tapað í þingkosningunum sem þar fóru fram í dag. Sagði hann niðurstöður talningar benda til þess að sósíaldemókratar undir forystu Alfreds Gusenbauers hefðu farið með sigur af hólmi og óskaði hann Gusenbauer til hamingju með sigurinn.

Tölur sem birtar hafa verið í sjónvarpi sýna að sósíaldemókratar hafi fengið 35,7 prósent atkvæða þegar 94 fjögur prósent atkvæða hafa verið talin en flokkur Schüssels, Þjóðarflokkurinn, 34,5 prósent. Það er tæplega átta prósentum minna en í síðustu kosningum fyrir fjórum árum.

Frelsisflokkurinn, sem er hægriöfgaflokkur, kemur þar á eftir með 11,1 prósent atkvæða og Græningjar svo með 10,3 prósent. Flokkur Jörgs Haiders, fyrrverandi leiðtoga Frelsisflokksins, náði naumlega inn á þing með 4,2 prósent atkvæða.

Endanlegar niðurstöður liggja fyrir í kvöld en miðað við þetta má búast við að Heinz Fischer, forseti Austurríkis, feli Alfred Gusenbauer að mynda nýja ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×