Erlent

Rússar þjarma enn að Georgíu

Rússar hertu í dag enn tökin á smáríkinu Georgíu, með því að loka fyrirtækjum sem Georgíumenn eiga í Rússlandi, og frysta atvinnuleyfi. Þá eru þeir að undirbúa að stórhækka verð á gasi sem þeir selja til Georgíu, sem væri gríðarlegt áfall fyrir efnahag landsins.

Rússar hafa þegar lokað fyrir allar samgöngur milli landanna og jafnvel póstflutningum hefur verið hætt. Ósköpin byrjuðu þegfar fjórir foringjar í rússneska hernum voru handteknir í Georgíu, og sakaðir um njósnir.

Þegar stjórnvöld í Georgíu sá viðbrögð Rússa flýttu þau sér að framselja mennina í hendur fulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem svo skilaði þeim til Rússlands. Það hefur þó ekki dugað til að friða Rússa, sem virðast stefna að því að koma Georgíu á kné.

Á bak við hamagang Rússa út af herforingjunum fjórum er sú staðreynd að Rússar eru ákaflega á móti stefnu stjórnvalda í Georgíu, sem vilja sterkari tengsl við vesturlönd, og jafnvel ganga í NATO. Rússar líta á það sem hrein svik af hendi þessa fyrrverandi Sovétlýðveldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×