Erlent

Rússar ræða beint við fulltrúa Norður-Kóreu

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. MYND/AP

Rússensk stjórnvöld segjast hafa verið í beinu sambandi við ráðamenn í Norður-Kóreu til að reyna að fá þá ofan af því að gera tilraunir með kjarnorkuvopn. Stjórnvöld í Pyongyang tilkynntu í fyrradag að slíkar tilraunir væru fyrirhugaðar. Alþjóðasamfélagið hefur varað Norðurkóreumenn við því að gera prófanir á slíkum vopnum.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða en það hefur ekki fengist staðfest. Ráðamenn þar hafa, með hléum, átt viðræður við Rússa, Bandaríkjamenn, Kínverja, Japana og Suður-kóreumenn um kjarnorkudeilu sína við vesturveldin.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði blaðamönnum í dag að ráðamenn í Moskvu hefðu áhyggjur að málinu. Hann lagði mikla áherslu á það að fulltrúar Norður-Kóreu settust aftur að samningaborðinu. Viðræður hafa ekki farið fram síðan í september í fyrra. Þá var samið um að stjórnvöld í Pyongyang legðu kjarnorkuáætlun sína á hilluna í skiptum fyrir ívilnanir vesturveldanna. Svo virðist þó sem það samkomulag hafi ekki haldið vegna deilna um framkvæmd þess.

Roh Moo-hyun, forseti Suður-Kóreu, kemur til Washington í dag og má ætla að kjarnorkudeilan verði eitt helsta umræðuefnið á fundi hans með George Bush, Bandaríkjaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×