Erlent

Búist við kjarnorkusprengingu um helgina

Allt eins er búist við því að Norður-Kórea láti verða af því að sprengja kjarnorkusprengju strax nú um helgina. Þetta er haft eftir aðstoðarutanríkisráðherra Japans, Shotaro Yachi, eftir fund hans með bandarískum öryggisfulltrúum í Washington.

Njósnahnettir hafa séð óvenjulega umferð á nokkrum stöðum, í landinu, sem talin er benda til þess að verið sé að undirbúa tilraunasprengingu.

Helst beinast augu manna að gamalli námu, sem mikil umferð hefur verið við. Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu um það á þriðjudaginn, að kjarnorkusprengingar væri að vænta innan skamms. Ef Kóreumenn láta verða af því að sprengja, mun það gjörbreyta stöðunni í þessum heimshluta og það má búast við miklu uppnámi.

Nágrannaríki eins og Japan og Suður-Kórea hafa lýst því yfir að það sé óafsakanlegt og ófyrirgefanlegt af Norður-Kóreu að sprengja kjarnorkusprengju. Vesturlönd eru á sama máli og hafa varað Kóreumenn alvarlega við að gera alvöru úr hótun sinni.

Bill Clinton, var á sínum tíma kominn á fremsta hlunn með að fyrirskipa loftárásir á Norður-Kóreu til þess að eyðileggja kjarnorkuver þeirra. Alls er óljóst hverjar afleiðingarnar yrðu af sprengingu, í dag, en nokkuð víst að þær yrðu alvarlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×