Erlent

Engin leynifangelsi í Þýskalandi

MYND/AP

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa neitað fréttum frá í dag þess efnis að háttsettir liðsmenn al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, þar á meðal einn höfuðpauranna á bak við hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, hafi verið í haldið í fangelsi á herstöðvum Bandaríkjahers í Þýskalandi án vitneskju yfirvalda. Það voru bresk samtök sem sérhæfa sig í að veita lögfræðiaðstoð sem greindu frá þessu. Samtökin annast mál margra þeirra sem eru í haldi Bandríkjamanna í Guantanamo-fangabúðunum að Kúbu.

Fulltrúar í nefnd á vegum Evrópuþingsins, sem rannskar nú meint brot Bandaríkjamanna í stríði þeirra gegn hryðjuverkum, tóku fréttum dagsins með fyrirvara en segja þörf á að rannsaka þessar fullyrðingar frekar.

Talsmaður þýskra stjórnvalda segir ekkert hæft í þessu. Leynifangelsi sé ekki að finna í Þýskalandi í dag og slík fangelsi hafi aldrei verið starfrækt þar.

Þýska blaðið Stern greindi frá því á vefsíðu sinni í dag að saksóknari í Karlsruhe hefði síðasta hálfa mánuðinn rannsakað hvort Bandaríkjaher hefði haldið grunuðum hryðjuverkamönnum með ólögmætum hætti á herstöð sinni í Mannheim. Það hefur ekki fengist staðfest.

Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá því seint á síðasta ári að bandarísk stjórnvöld hefðu rekið leynifangelsi í Austur-Evrópu þar sem grunaðir hryðjuverkamenn hefðu verið yfirheyrðir. Síðan þá hafa þessar ásakanir verið rannsakaðar í Evrópu.

Bush Bandaríkjaforseti viðurkenndi í síðasta mánuði að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefði yfirheyrt nokkra tugi grunaðra hryðjuverkamanna í leynifangelsum utan Bandaríkjanna. Það sem hefi fengist með yfirheyrslum þar heðfi komið í veg fyrir frekari hryðjuverkaárásir.

Stjórnvöld í Washington segja enga menn nú í haldi í leynifangelsum og hafa ekki gefið upp hvar slík fangelsi hafi verið starfrækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×