Erlent

Fjórir fórust

Vélin var á leið til Molde frá Stafangri, en ætlaði að koma við á Storð. Vélin rann út af flugbrautinni og varð alelda á skammri stund. Tólf manns komust út úr vélinni, en björgunarlið fann fjóra látna þegar eldar höfðu verið slökktir. Þeir sem björguðust voru fluttir á þrjú mismunandi sjúkrahús, eftir alvarleika brunasáranna. Farþegarnir voru allir starfsmenn norska gasvinnslufyrirtækisins Aker Kværner og hafa þrjú þúsund starfsmenn þess lagt niður vinnu í dag vegna slyssins. Þrír Færeyingar og einn Dani voru í áhöfninni, og farþegarnir tólf voru allir frá Rogalandi í Noregi, samkvæmt frétt dagblaðsins Aftenposten. Lengi framan af degi var sagt að þrettán manns hefðu bjargast og þrír látist, en nú síðdegis var staðfest að fjórir hefðu farist.

Vélin var af gerðinni British Aerospace-146-200, tók 92 farþega og er sömu gerðar og Atlantic Airways notar til áætlunarflugs hingað til lands. Flugbrautin í Storð er tólf hundruð metra löng og segja yfirmenn flugvallarins að það eigi að vera meira en nóg fyrir vélar af þessu tagi, enda lendi þær þar reglulega. Tvær sams konar vélar frá Atlantic þurftu að nauðlenda í Bergen í september vegna bilunar í bremsubúnaði. Magni Arge, framkvæmdastjóri félagsins segir vélina sem fórst ekki vera aðra þeirra.

Verið er að rannsaka hvað olli slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×