Danska ríkisstjórnin hyggst ekki lýsa andstöðu sinni við teikningu sem birt var á heimasíðu Danska þjóðarflokksins og sýnir Múhameð spámann sem barnaníðing. Stjórnarandstaðan vill að ríkisstjórnin fordæmi teikningarnar og óttast að önnur mótmælaalda gegn Danmörku rísi í Miðausturlöndum, en eins og kunnugt er var teikningum af Múhameð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum í fyrra mótmælt kröftuglega víða í hinum íslamska heimi.
Myndin sem birt var á heimasíðu Þjóðarflokksins í vikunni birtist fyrst í málgagni þess í vor og bætist við myndband sem danskir fjölmiðlar greindu frá í vikunni þar sem ungliðar í Þjóðarflokknum kepptust við að smána Múhameð spámann með teikningum. Ráðist var gegn sendiráði Dana í Teheran í Íran í gær vegna fregna af myndbandinu.
Per Stig Mölller, utanríkisráðherra Danmerkur, segir ríkisstjórnina ekki ætla að tjá sig um myndina á heimasíðu Þjóðarflokksins og segir stjórnina þegar hafa lýst því yfir að hún standi fyrir virðingu milli trúarbragða og virðingu fyrir trúarskoðunum fólks.