Erlent

Bush styður aðild Króatíu að ESB og NATO

Ivo Sanader, forsætisráðherra Króatíu (tv.), á fundi sínum með George W. Bush, Bandaríkjaforseta, í Hvíta húsinu í Washington í dag.
Ivo Sanader, forsætisráðherra Króatíu (tv.), á fundi sínum með George W. Bush, Bandaríkjaforseta, í Hvíta húsinu í Washington í dag. MYND/AP

Bush Bandaríkjaforseti ætlar að hvetja til þess á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í næsta mánuði að Króatía verði tekin inn í bandalagið. Auk þess ætlar hann að ítreka stuðning bandarískra stjórnvalda við aðild landsins að Evrópusambandinu.

Leiðtogar NATO ríkja funda í Riga, höfuðborg Lettlands. Þar mun Bush ræða við aðra þjóðarleiðtoga og kynna þar hugmyndir sínar um að hægt yrði að leyfa inngöngu Króata árið 2008.

Bandaríkjaforseti átti í dag fund með Ivo Sanader, forsætisráðherra Króatíu, í Hvíta húsinu í Washington. Sanader þakkaði Bush Bandaríkjaforseta stuðninginn.

Auk Króata sækjast nágrannar þeirra í Albaníu og Makedóníu eftir inngöngu í NATO, en þessar þjóðir sátu eftir þegar bandalagið var stækkað í austur fyrir 2 árum.

Sendifulltrúar bandalagsins hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu lýðræðis í löndunum þremur og hversu hratt, eða öllu heldur hægt, umbætur gangi fyrir sig.

Króatar hófu aðildarviðræður við ESB fyrir 2 áarum og vonast eftir því að geta gengið í sambandið árið 2010. Fulltrúar ESB í Brussel hafa sagt að stjórnvöld í Zagreb verði að uppræta spillingu og stuðla að endurbótum á dóms- og stjórnkerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×