Erlent

Rice róar Japana

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fullvissaði Japana í dag um að þeir nytu herverndar Bandaríkjanna ef til átaka kæmi í Austur-Asíu. Vonast er til að þetta dragi úr líkum á vígbúnaðarkapphlaupi á svæðinu.

Enn er allt með kyrrum kjörum á Kóreuskaganum en grunur leikur á að Norður-Kóreumenn hyggi á aðra tilraunasprengingu á næstu dögum. Margir óttast að ef tilraunir þeirra heppnist vel muni aðrar þjóðir í heimshlutanum, til dæmis Japanar, einnig koma sér upp kjarnorkuvopnum og við það yrði ástandið eystra mun viðkvæmara. Með þetta í huga kom Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á fund japanskra ráðamanna í Tókýó í dag til að fullvissa þá um að Bandaríkjamenn myndu standa við allar varnarskuldbindingar sínar gagnvart Japan og Suður-Kóreu. Taro Aso, utanríkisráðherra Japans, virtist ánægður með hughreystingar Rice.

Frá Tókýó mun svo Rice halda til höfuðborga Suður-Kóreu og Kína til skrafs og ráðagerða við þarlenda ráðamenn um hvernig haga eigi efnahagsþvingunum gegn Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×