Erlent

Alvarlegar afleiðingar ef Norður-Kóreumenn selji kjarnorkuvopn

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, í garði Hvíta hússins í Washington í dag.
George W. Bush, Bandaríkjaforseti, í garði Hvíta hússins í Washington í dag. MYND/AP

George Bush, Bandaríkjaforseti, varaði Norður-Kóreumenn í dag við að þeir yrðu að taka afleiðingunum ef þeir yrðu uppvísir að því að selja Írönum eða al-Qaeda liðum kjarnorkuvopn. Bush sagði að stjórnvöld í Pyongyang yrðu þegar látin sæta ábyrgð ef það kæmi í ljós.

Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við fréttastofu bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar ABC í kvöld að ef njósnir bærust af því að verið væri að undirbúa flutning kjarnorkuvopna frá Norður-Kóreu yrði komið í veg fyrir það þegar í stað. Síðan yrðu stjórnvöld í Pyongyang að taka alvarlegum afleiðingum þess.

Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir grunar að Norður-Kóreumenn ætli að sprengja aðra kjarnorkusprengju í tilraunaskyni þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi fordæmt tilraunasprengingu þeirra 9. október síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×