Erlent

8 sprengingar í vopnageymslu í Serbíu

Starfsmaður kannar skemmdir á bensínstöð nærri Paracin í Serbíu í dag.
Starfsmaður kannar skemmdir á bensínstöð nærri Paracin í Serbíu í dag. MYND/AP

Að minnsta kosti 20 særðust þegar minnst 8 sprengingar urðu í vopnageymslu serbneska hersins í nótt. Vopnageymslan stóð á hæð nærri iðnaðarbænum Paracin, um 150 kílómetra suður af höfuðborginni Belgrad. Fjölmargar byggingar í Paracin skemmdust.

Mikill eldur kviknaði og teyðu eldtungurnar sig hátt í loft. Sjónvarpsstöðvar í Serbíu sýndu myndir af gráum reyk sem lagði frá vettvangi. Flestir þeirra sem særðust urðu fyrir glerbrotum og sprengjuflísum sem þeyttust út í loftið. Einn maður fékk taugaáfall og var þegar lagður inn á sjúkrahús.

Margir íbúar í Paracin hrukku upp af værum svefni þegar sprengingarnar urðu. Gluggar brotnuðu og bygginar skemmdust. Fjölmargir hafast nú við á götum úti í bænum.

Dragan Jocic, innanríkisráðherra Serbíu, segir miklar skemmdir hafa orðið í bænum. Aleksandar Popovic, umhverfisráðherra, segir enga hættu á eiturleka.

Fyrsta sprengingin varð klukkan tvö að íslenskum tíma síðustu nótt og sú síðast anokkrum klukkustundum síðar. Ekki er vitað hvað olli þeim. Radomir Mladenovic, rannsóknardómari, er staddur í Paracin. Hann segir yfirvöld í Serbíu ekki útiloka skemmdarverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×