Erlent

Grípa þurfi til valdbeitingar til að stöðva Ísraela

MYND/AP

Yfirmaður eftirlitssveita Sameinuðu þjóðanna í Suður-Líbanon segir að svo geti farið að grípa verði til valdbeitinga til að koma í veg fyrir innrásir Ísraela inn í lofthelgi Líbana. Alain Pellegrini, yfirmaður friðargæslusveitanna, sagði þetta á blaðamannafundi í dag og bætti því við að til þess að það yrði hægt þyrfti að breyta umboði hersveita SÞ í landinu. Talsmenn SÞ sögðu eftir fundinn að ekki væri verið að undirbúa það. Sendifulltrúi Ísraela hjá SÞ segir það koma sér á óvart að Pellegrini hafi látið þessi orð falla.

Herflugvélar Ísraela hafa flogið inn í líbanska lofthelgi ítrekað síðan bundinn var endir á 34 daga átök Ísraela og Hizbollah-skæruliða í Suður-Líbanon 14. ágúst sl. Ísraelar hafa sagt að það sé gert til að hafa eftirlit með því að vopnum sé ekki smyglað til Hizbollah-skæruliða.

Pellegrinu segir að 7.200 manna herlið undir hans stjórn hafi ekki orðið varir við neitt sem bendi til þess að vopnum hafi verið smyglað til Hizbollah-skæruliða. Hann sagði ferðum eftirlitsvéla Ísraela hafa fækkað síðustu daga en þær væru enn vandamál sem yrði að taka á.

Einn æðsti klerkur sjía-múslima í Líbanon sagði í vikunni að friðargæsluliðar SÞ í landinu gerðu lítið til að stöðva brot Ísraela gegn sjálfstæði Líbana og hvatti landa sína til að fara að friðargæsluliðum með gát. Svo virtist sem þeir hefðu komið til Líbanons til að verja Ísraela en ekki Líbana.

Ísrelar segja friðargæsluliða SÞ ekki gera neitt til að afvopna Hizbollah-skæruliða þar sem þeim takist ekki að koma í veg fyrir að ólöglegar vopnasendingar berist þeim.

Pellegrini benti á það í dag að samkvæmt lögum mættu aðeins friðargæsluliðar SÞ og líbanskir hermenn bera vopn í suðurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×