Erlent

ESB fordæmir brottvísun fulltrúa frá Eþíópíu

Meles Zenawi, forsætisráðherra Eþíópíu.
Meles Zenawi, forsætisráðherra Eþíópíu. MYND/AP

Evrópusambandið hefur fordæmt þá ákvörðun stjórnvalda í Eþíópíu að vísa tveimur sendifulltrúum sambandsins úr landi. Fulltrúar ESB segja það fullkomlega óásættanlegt. Þeir eru grunaðir um að hafa reynt að smygla tveimur flóttamönnum til Kenía. Annar þeirra er eþíópískur lögfræðingur sem vinnur fyrir Framkvæmdastjórn sambandsins. Yfirvöld í Eþíópíu segja flóttamennina hafa verið handtekna grunaða um alvarlega glæpi. Ekki er þó gefið upp hvað þeir eigi að hafa gert af sér.

Óttast er að þeir muni sæta pyntingum og segja fulltrúar Amnesty International mikla hættu á því.

Stjórnvöld í Eþíópíu hafa mátt sæta töluverðri gagnrýni frá alþjóðasamfélaginu síðustu misseri, ekki síst vegna umdeildra þingskosninga í landinu í maí í fyrra. ESB hefur hætt fjárhagaðstoð við landið vegna kosninganna og öldu ofbeldis sem hefur dunið á landinu síðan þá.

Fram að kosningunum hafi verið litið á Meles Zenawi, forsætisráðherra, sem mann umbóta sem væri af nýrri kynslóð leiðtoga í Afríku. Yfirmaður kosningaeftirlits ESB, Ana Gomes, segir í skýrslu, sem lekið var í fjölmiðla í gær, að fjöldamorð eftir kosningarnar staðfestu að stjórnvöld í Eþíópíu virtu ekki mannréttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×