Erlent

Mótmælaskeytin streyma inn

Hátt í níutíu þúsund mótmælaskeyti hafa verið send af heimasíðu Greenpeace-samtakanna til utanríkisráðuneytisins vegna hvalveiða Íslendinga. Jónína Bjartmarz talaði fyrir daufum eyrum á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna í dag þegar hún kynnti málstað ríkisstjórnarinnar.

Mótmælaaldan sem upphófst í síðustu viku vegna ákvörðunar um hvalveiðar er að verða að sannkallaðri flóðbylgju. Hundruð greina og frétta hafa birst í fjölmiðlum um allan heim eftir að sjálfar veiðarnar hófust en rauði þráðurinn í þeim er yfirleitt sá sami: Íslendingar hafa rofið tveggja áratuga langt hvalveiðibann með því að veiða tegundir í útrýmingarhættu. Viðbrögð almennings hafa heldur ekki látið á sér standa. Tugþúsundir mótmælaskeyta hafa borist utanríkisráðuneytinu og sendiráðum Íslands í útlöndum. Stærstur hluti þeirra er staðlað bréf Greenpeace samtakanna sem hægt er að senda í gegnum heimasíðu þeirra. Nú undir kvöld höfðu yfir 86.000 manns sent slíkt skeyti. Þá hefur svipaður póstur borist hvalaskoðunarfyrirtækjum þar sem þeim er jafnvel óskað gjaldþroti. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra var á ráðherrafundi Norðurlandanna í Lúxemborg í morgun. Þar var líka Andreas Carlgren, sænskur starfsbróðir hennar, sem í viðtölum við fjölmiðla hefur veist harkalega að Íslendingum vegna veiðanna og bent á að það hafi einmitt verið fyrir mistök sænsku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins árið 2002 að Svíar mæltu með inngöngu Íslendinga í ráðið. Heyra mátti á Jónínu að hún hafi talað fyrir daufum eyrum ytra.

Fundur ráðherranna í dag var til undirbúnings umhverfisráðherrafundar ESB sem hófst strax í kjölfarið. Þar voru hvalveiðar Íslendinga til umræðu að beiðni Austurríkismanna. Engar ákvarðanir voru þó teknar á þeim fundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×