Erlent

OPEC-ríkin ekki samstíga

Fulltrúar OPEC-ríkja á fundi samtakanna í Doha í Katar í síðustu viku.
Fulltrúar OPEC-ríkja á fundi samtakanna í Doha í Katar í síðustu viku. MYND/AP

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði snarlega í dag vegna efasemda um að þau fleiri ríki, sem eigi aðild að OPEC, Samtökum olíuframleiðsluríkja, fylgi fordæmi Sádí Araba og draga úr framleiðslu líkt og fulltrúar ríkja innan samtakanna sömdu um í síðustu viku. Vestanhafs lækkaði verð á hráolíu um 51 sent og er nú rúmir 58 bandaríkjadalir á tunnu. Í Lundúnum lækkaði verð um 48 sent og er nú rúmir 59 bandríkjadalir.

Sádí Arabar, sem eru mestu olíuútflytjendur í heimi, tilkynntu viðskiptavinum í Asíu og Bandaríkjunum um helgina að framboð yrði minna í næsta mánuði. Það byggði á ákvörðun OPEC að draga úr framboði í fyrsta sinn í tvö ár. Samþykkt var á föstudaginn að draga framleiðslu saman um 1,2 milljónir tunna á dag þar sem offramboð væri á markaði.

Staðan er hins vegar sú að orkumálaráðherrar OPEC-ríkja eru ekki samstíga og sammála um hvernig eigi að standa að samdrættinum.

Sérfræðingar segja verð enn nokkuð hátt, þrisvar sinnum hærra er í janúar 2002, og því væri ekki eins mikill þrýstingur á OPEC-ríkin um að standa saman.

Ákvörðun OPEC nú er mesta framleiðsluminnkun síðan í janúar 2002 og hefur ekki haft áhrif til að draga úr lækkuninni frá hæsta verði í júlí síðastliðnum, þ.e. rúmum 78 bandaríkjadölum á tunnu.

Sumir ráðherrar OPEC-ríkja spá frekari samdrætti þegar fulltrúar funda næst í Nígeríu í desember, jafnvel samdrátt um sem nemur hálfri milljón tunna á dag til viðbótar. Edmund Daukoru, forseti OPEC, segir þó of snemmt að spá til um hvað ákveðið verði á þeim fundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×