Erlent

Minnislaus maður finnur ættingja sína

Jeff Ingram gekk undir nafninu "Al" þar til ættingjar hans fundu hann og báru kennsl á hann.
Jeff Ingram gekk undir nafninu "Al" þar til ættingjar hans fundu hann og báru kennsl á hann. MYND/AP

Karlmaður sem þjáist að minnisleysi hefur loks fundið fjölskyldu sína eftir að hafa verið týndur og tröllum gefinn í mánuð. Fjölskyldan bar kennsl á manninn eftir að hann óskaði eftir hjálp í sjónvarpsútsendingu. Maðurinn gekk undir nafninu "Al". Nú er komið í ljós að hann heitir Jeff Ingram.

Foreldar Jeffs eru búsettir í Alberta í Kanada. Þau sáu útsendinguna og hringdu þegar í unnustu hans í Olympia i Washington.

Jeff fór frá Washington til Alberta 6. september síðastliðinn til að heimsækja dauðvona vin sinn. Hann komst hins vegar aldrei á áfangastað og hringdi aldrei til að láta vita af sér. Síðan leið og beið og ekkert spurðist til Jeffs. Unnusta Jeffs var þess fullviss að hann væri á lífi og að hann eigraði minnislaus um. Hún reyndist eiga kollgátuna enda hafði Jeff þjást af minnisleysi í vægri mynd skömmu áður en hann hvarf. Talið er að þar hafi álag og sorg átt stóran þátt í að ræna Jeff minninu.

Lögreglan í Denver, þar sem Jeff fannst, er yfir sig ánægð með að málið hafi fengið góðan endi. Málinu er þó ekki alveg lokið því Jeff á erfiða daga, vikur og mánuði framundan í endurhæfingu. Óvíst er hvenær hann fær að snúa aftur heim til Washington, það sé ákvörðun lækna hans sem ráði þar um. Þó svo hann viti hverjir ástvinir sínir og ættingjar séu þekki hann þetta fólk ekki og því langt í land að hann nái fullum bata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×