Erlent

Stálu frá Coke og reyndu að selja Pepsi

MYND/Getty Images

Tveir menn, sem sakaðir eru um að hafa ætlað að stela viðskiptaleyndarmálum frá Coca-Cola og selja þau til PepsiCo játuðu sekt sína fyrir dómi í Bandaríkjunum í dag.

Ibrahim Dimson og Edmund Duhaney gætu átt yfir höfði sér 10 ára fangelsi og þurft að greiða jafnvirði rúmlega 17 milljóna íslenskra króna í sekt.

Réttarhöld yfir Joyu Williams, fyrrverandi ritara hjá Coca-Cola, hefjast 13. nóvember nk. en hún mun hafa verið í slagtogi við Dimson og Duhaney. Henni er gefið að sök að hafa stolið sýnum og selt þeim þau.

Duhaney mun hafa játað gegn því að fá vægari refsingu auk þess sem hann muni vitna gegn Williams fari mál hennar á endanum fyrir dóm.

Dimson, Duhaney og Williams voru öll ákærð 11. júlí sl. að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Þegar þau gáfu sig fram við fulltrúa PepsiCo og buðu sýni og upplýsingar til sölu höfðu fulltrúar fyrirtækisins þegar samband við Coca-Cola og aðstoðuðu bandarísku alríkislögregluna, FBI, við að upplýsa málið. Alríkislögreglumenn funduðu svo með Dimson, Duhaney og Williams í gerfi fulltrúa PepsiCo. Buðust þeir til að borga jafnvirði rúmlega 103 milljóna íslenskra króna fyrir sýnin og upplýsingarnar. Auk þess náðist Williams á myndband þar sem hún var að stela sýnum og skjöldum hjá Coca-Cola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×