Erlent

Matarskortur í Norður-Kóreu

Matarskortur í Norður-Kóreu er mikill og hefur aukist eftir að stjórnvöldi í Pyongyang sprengdu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni og helstu ríki og alþjóðasamtök drógu stuðning sinn til baka. Þetta segir Vitit Muntarbhorn, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með ástandi mannréttindamála í Norður-Kóreu. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, að íbúum í Norður-Kóreu skorti mat og til að bæta gráu ofan á svart hafi mikil flóð eyðilagt uppskeru í landinu.

Ríki heims hafa fordæmt Kim Jong-Il, leiðtoga Norður-Kóreu, eftir að stjórn hans gerði tilraun með kjarnorkusprengju fyrr í mánuðinum. Gripið hefur verið til refsiaðgerða.

Áælað var að 100 þúsund tonn af matvælum yrðu send til Pyongyang. Muntarbhorn segir útlit fyrir að framlagið verði mun minna. Eldflaugatilraunir í júlí og tilraunin með kjarnorkusprengju í mánuðinum hafi valdið þessu. Alþjóðasamfélagið haldið að sér höndum og það hafi skelfiflegar afleiðingar fyrir almenna borgara í Norður-Kóreu. Ástandið valdi miklum áhyggjum.

Aðgerðir stjórnvalda í Norður-Kóreu hafi ekki síður áhrif að mati Muntarbhorn. Ástandið sé síður en svo ásættanlegt þegar litið sé til aðgerða stjórnvalda í Pyongyang gagnvart samlöndum sínum, og það þrátt fyrir að umtalsverðar umbætur hafi verið gerðar á dómskerfinu í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×