Erlent

Reyndi að sprengja rörsprengjur fyrir utan bandaríska sendiráðið

Sprengjusérfræðingar að störfum fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Caracas í dag.
Sprengjusérfræðingar að störfum fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Caracas í dag. MYND/AP

Venesúelamaður var handtekinn þegar hann reyndi að sprengja heimagerðar rörsprengjur fyirr utan bandaríska sendiráðið í Caracas í dag. Engan sakaði og götunni sem sendiráðið stendur við var lokað þar til sprengjusérfræðingar höfðu fargað sprengjunum.

Maðurinn hafði komið sprengjunum fyrir og var að gera sig líklegan til að sprengja þær þegar hann var handtekinn. Ekki er vitað hvað honum gekk til. Fjölmiðlar í Venesúela telja þó líklegt að maðurinn, sem er námsmaður, hafi viljað vekja athygli á sér með athæfinu.

Grunur leikur á að maðurinn hafi síðan ætlað að koma fleiri sprengjum fyrir utan við ísraelska sendiráðið. Það var leigubílstjóri, sem hafði ekið manninum um Caracas, sem lét vita af dularfullu athæfi mannsins. Maðurinn var þá eltur uppi og handtekinn.

Samskipti Bandaríkjanna og Venesúela hafa versnað töluvert síðan Hugo Chavez, forseti Venesúela, komst til valda árið 1999. Hann er vel þekktur fyrir andstöðu sína við stefnu Bush Bandaríkjaforseta, sem hann hefur sagt vera hinn vonda sjálfan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×