Innlent

Ráðherrar misnotuðu vald sitt með hlerunum

Kjartan Ólafsson segir ljóst að Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein hafi brotið á mannréttindum fólks og misnotað vald sitt, þegar þeir sem dómsmálaráðherrar létu hlera síma þessara samtaka á sjöunda áratug síðustu aldar. Kjartan hefur fengið afhent gögn um hleranirnar.

Í gögnum sem Kjartan fékk afhent frá Þjóðskjalasafni Íslands í gær, kemur fram að sími Samtaka hernámsandstæðinga og Sósíalistaflokksins voru hleraðir á árunum 1961 og 1963 að beiðni Bjarna Beneditkssonar, þáverandi dómsmálaráðherra og árið 1968 af Jóhanni Hafstein dómsmálaráðherra. Kjartan segir sakadómara alltaf hafa farið eftir þessum óskum, án þess að krefjast frekari rökstuðnings, þótt ráðherrarnir færðu ekki mikil rök fyrir máli sínu.

Kjartan segir að í tveimur tilvikanna hafi verið óskað eftir hlerunum vegna fyrirhugaðra funda Samtaka hernámsandstæðinga, sem hann var á sínum tíma formaður fyrir. Hann segir að samtökin hafi haldið marga fundi og þar af marga fjölmenna útifundi. Það hafi verið regla hjá samtökunum að alls ekki væru hafðar uppi óspektir eða átök við lögreglu. En árið 1963 hafi dómsmálaráðherra m.a. sent forsíðu af Þjóðviljanum með beiðni um símhlerun, þar sem greint er frá fyrirhuguðum fundi hernámsandstæðinga, sem rök fyrir hleruninni.

Kjartan segir að dómsmálaráðherra hverju sinni ætti fyrst og fremst að huga að því að misnota ekki sitt mikla vald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×