Erlent

Madonna í vondum málum

Bandaríska söngkonan Madonna sætir nú gagnrýni eftir að hafa ættleitt lítinn dreng frá Malaví. Faðir hans segist ekki hafa áttað sig á þýðingu ættleiðingarskjala sem hann skrifaði undir og mannréttindasamtök átelja að umsókn söngkonunnar var flýtt í gegnum kerfið.

David Banda, er eins árs gamall hnokki frá Lupunga í Malaví. Hann á raunar ekki heima þar lengur því í síðustu viku kom söngkonan Madonna í heimsókn til þess að ættleiða hann. Alla jafna er ættleiðing flókið ferli en eins og um séra Jón þá gilda aðrar reglur um heimsþekktar poppstjörnur. Eftir að faðir David gaf skriflegt samþykki sitt fyrir ættleiðingunni gaf dómstóll bráðabirgðaleyfi og nú dvelur guttinn í Lundúnum, væntanlega í góðu yfirlæti. Babb er aftur á móti komið í bátinn. Faðirinn, sem er ólæs, hefur viðurkennt að hann hafi ekki gert sér grein fyrir að undirskriftin þýddi að hann myndi ekki sjá son sinn framar. Malavísk mannréttindasamtök hafa sömuleiðis sitthvað við málsmeðferðina að athuga.

Sjálf hefur Madonna ekkert tjáð sig um málið en hún er nú á leið til Bandaríkjanna til að kynna nýútkomna barnabók sína. Þar ætlar hún í leiðinni að ræða við spjallþáttadrottninguna Opruh Winfrey um ættleiðinguna og verður þátturinn sýndur vestanhafs annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×