Erlent

Chavez sagður hafa gefið sæti í Öryggisráði SÞ upp á bátinn

Evo Morales, forseti Bólivíu.
Evo Morales, forseti Bólivíu. MYND/AP

Stjórnvöld í Venesúela hafa gefið sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna upp á bátinn og tilnefna Bólívíu í sæti sem ríki rómönsku Ameríku hafa tilkall til 2 ár í senn. Evo Morales, forseti Bólivíu, greindi frá þessu í kvöld.

Morales segir að Hugo Chavez, forseti Venesúela, hafi hringt í sig í dag og sagt ljóst að Venesúela fengi ekki 2/3 atkvæða á Allsherjarþingi SÞ til að tryggja sér sætið.

Utanríkisráðuneyti Venesúela hefur ekki staðfest þetta. Talsmaður stjórnvalda hefur þó sagt ráðamenn í Venesúela enn vera að meta stöðuna. Til greina komið að tilnefna Bólivíu en það sé aðeins ein leið af mörgum.

Venesúela hefur háð harða baráttu við Gvatemala um sætið. Gvatemala nýtur stuðnings Bandaríkjanna og hefur haft sigur á Venesúela í hverri atkvæðagreiðslu á fætur annarri á Allsherjarþinginu. Hvorugt ríki hefur fengið 2/3 atkvæða sem þarf til.

15 ríki sitja í Öryggisráðinu. 5 eru með fast sæti og neitunarvald, en kosið er um skipan í hin sæti 10 til 2 ára í senn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×