Erlent

Ekki gripið til óhóflegrar valdbeitingar segir lögreglustjóri

Óeirðalögreglumenn við þinghúsið í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, í dag.
Óeirðalögreglumenn við þinghúsið í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, í dag. MYND/AP

Peter Gergenyi, lögreglustjóri í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, segir lögreglumenn ekki hafa gripið til óhóflegrar valdbeitingar til að hafa hemil á mótmælendum í borginni í gær. Hann segir að lögreglumenn hafi þurft að grípa til aðgerða en þeir hafi í alla staði farið að lögum. Lögreglumenn skutu gúmmíkúlum og beittu táragasi og vatnssprautum gegn mótmælendum í gærkvöldi. Fólkið hafði safnast saman til að lýsa andúð sinni á ríkisstjórninni, daginn sem Ungverjar minntust 50 ára afmælis skammlífrar uppreisnar gegn Sovétríkjunum.

Gergenyi segir að almenningur ætti frekar að þakka lögreglunni fyrir að hafa gripið til aðgerða í stað þess að leita logandi ljósi að mistökum við meðhöndlun mótmælenda. Hann segir lögreglumenn hafa fundið eldhúshnífa, járnstangir, flugelda og slöngvur á þeim stað þar sem stjórnarandstæðingar hafi haldið til í 5 vikur, eða frá því upp úr sauð þegar uppljóstrað var um að Ferenc Gyurcsany, forsætisráðherra, hefði logið að þjóðinni í aðdraganda síðustu þingkosninga. Þá kom til átaka.

Lögreglustjórinn segir að efni til sprengjugerðar hafi einnig fundist. Auk alls þessa hefðu tjaldbúðir mótmælenda fengið að standa lengur en veitt leyfi sagði til um.

Mikil spenna hefur verið í borginni í dag eftir átök gærdagsins og kvöldsins. 128 munu hafa særst í átökunum, að því er fram kemur á fréttavef BBC. Lögregla mun hafa handtekið 130 mótmælendur.

Búið er að girða af svæðið við þinghúsið þar sem mótmælendur hafa haldið til í rúman mánuð.

Gyurcsany, forsætisráðherra, hefur látið kröfur um afsögn sem vind um eyru þjóta og sagt mótmælendur tilheyra háværum minnihlutahópi. Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins segir hins vegar að öll þjóðin sé andsnúin ólöglegri ríkisstjórn forsætisráðherrans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×