Erlent

Vilja kalla hermenn heim frá Írak innan árs

Breski herinn gerir sér vonir um að geta kallað hermenn sína heim frá Írak innan árs. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir ónafngreindum talsmanni í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Hann segir bresk hermálayfirvöld vilja leggja áherslu á ástandið í Afganistan og því verði hermenn sendir þangað.

Breski herinn er sagður í vanda. Illa gangi að halda á mönnum og dreift sé um of úr mannafla. Á sama tíma og þetta fréttist er enn deilt um hvernig haga eigi málum í Írak.

Fyrr í þessum mánuði sagði yfirmaður breska heraflans að kalla ætti breska hermenn heim frá Írak eins fljótt og mögulegt væri. Ummæli heimildarmanns Reuters eru fyrsta vísbending um að Bretar hafi tímasett brotthvarf sitt að einhverju leyti.

Annar fulltrúi varnarmálaráðuneytisins bandaríska gerir lítið úr þessum upplýsingum og segir um að ræða reglubundið mat innan breska hersins. Bresk stjórnvöld hefu ekki gert háttsettum bandarískum fulltrúum grein fyrir breyttum áætlunum eða tímasetningu brotthvarfs.

Mikill þrýstingur er á Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og George Bush, Bandaríkjaforseta, vegna ástandsins í Írak. Ofbeldisverkum fjölgar í Írak. Nýleg skoðanakönnun sýnir að rúmlega 60% breskra kjósenda vilja að breskir hermenn verði kallaðir heim frá Írak á þessu ári. Auk þess er líklegt að andstaða kjósenda við Íraksstríðið kosti Repúblíkanaflokk forsetans meirihluta í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings í kosningum 7. nóvember nk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×