Franska lögreglan hefur mikinn viðbúnað þegar eitt ár er liðið síðan miklar og langvarandi óeirðir blossuðu upp í úthverfum Parísar og í framhaldinu einnig vítt og breitt um Frakkland.
Skýrsla Upplýsingaþjónustu frönsku lögreglunnar sem Le Figaro komst yfir í gær, varar við því að ekki þurfi mikið til að reiði beinist gegn lögreglunni og því reyndu lögreglumenn að láta lítið fyrir sér fara í gærkvöld og í nótt. Reynt var að hafa sem fæsta bíla á götunum enda flestum í fersku minni myndir af logandi bílum sem voru eitt aðalmerki óeirðanna fyrir ári síðan.