Erlent

Fleiri týndu lífi en stjórnvöld héldu fram

135 fleiri almennir borgarar týndu lífi í átökum eftir kosningar í Eþíópíu í fyrra en stjórnvöld þar í landi hafa haldið fram. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar sem þingið skipaði til að rannsaka aðdraganda átaka sem blossuðu upp tvívegis eftir þingkosningarnar.

Það er niðurstaða nefndarinnar að 193 almennir borgarar hafi týnt lífi og 6 lögreglumenn til viðbótar. Ríkisstjórn Meles Zenawi, forsætisráðherra, hafði áður greint frá því að 58 hefðu týnt lífi. Óháðir fjölmiðlar höfðu sagt 84 hafa fallið og byggðu það á framburði vitna og heimildum frá sjúkrahúsum í höfuðborginni, Addis Ababa.

Segja má að þessi niðurstaða sé áfall fyrir stjórnvöld sem hafa viljað gera lítið úr því mannfalli sem varð eftir þingkosningarnar 15. maí í fyrra. Forsætisráðherrann bannaði mótmæli og sagði lögreglu að nota þær aðferðir sem til þyrfti svo lýðurinn róaðist. Flokkur Meles fékk meirihluta þingsæta samkvæmt opinberum niðurstöðum. Stjórnarandstöðuflokkar sögðu hins vegar brögð hafa verið í tafli og þvingunum beitt.

Öryggissveitarmenn tóku forsætisráðherrann á orðinu og skutu á mótmælendur í höfuðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×