Erlent

Þolinmæðin ekki endalaus

George Bush Bandaríkjaforseti segir sívaxandi ofbeldi í Írak mikið áhyggjuefni og að þolinmæði Bandaríkjamanna gagnvart íröskum stjórnvöldum sé ekki óþrjótandi. Árangur í Írak er lykilatriði, að mati forsetans, eigi landið ekki að falla í hendur öfgamanna.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um ástandið í Írak þessa daga. Engum böndum virðist hægt að koma á ofbeldið í landinu heldur fer mannfall í röðum hermanna og óbreyttra borgara stöðugt vaxandi. Aldrei þessu vant viðurkenndi George Bush þetta á sérstökum blaðamannafundi sem hann boðaði til í dag.

Í ræðu sinni kvaðst hann uggandi um stöðu mála en hvatti landsmenn um leið til að hrapa ekki að ályktunum um leið og á móti blási. Nauðsynlegt sé að breyta um aðferðir til að mæta síbreytilegri ógn.Markmið Bandaríkjastjórnar eru semsagt óbreytt, að mati forsetans: Að aðstoða ríkisstjórn Íraks við að koma á stöðugleika í landinu og um leið í veg fyrir að það verði að bækistöð öfgamanna alls staðar að í heiminum. En Bandaríkjamenn ætla sér ekki að vera í Írak endalaust. Það kom glögglega fram í máli forsetans.

Tæpar tvær vikur eru til bandarísku þingkosninganna og litast ræða Bush í dag litast öðrum þræði af þeirri staðreynd en um leið vill hann fullvissa íraska ráðamenn um að hann sé ekki að missa móðinn. Allt bendir hins vegar til að þolinmæði bandarísks almennings sé þrotin því einungis fimmti hver Bandaríkjamaður hefur ennþá trú á að sigur vinnist í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×