Erlent

Hyldýpi örvæntingarinnar blasti við forsætisráðherranum

Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs
Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs

Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur, í nýrri bók, skýrt frá djúpu þunglyndi sem þjáði hann meðan hann leiddi Miðflokkastjórnina í Noregi árið 1998. Við honum blasti hyldýpi örvæntingarinnar.

Bondevik tók sér rúmlega þriggja vikna veikindafrí, sem var mjög til umræðu í Noregi.

Forsætisráðherrann segir að hann hafi reynt að flýja áhyggjur sínar með því að fara með konu sinni í sumarbústað þeirra í Vestfold, til að ná áttum.

Það reyndist þó engin hjálp því þunglyndi hans jókst svo að einn daginn komst hann ekki fram úr rúminu. Bondavik segir að hann hafi þá loks áttað sig á því að hann þyrfti á hjálp að halda, og hringt í náinn vin sinn, Knut Vollebæk. Vollebæk kvaddi þegar til lækni, geðlækni og sálfræðing og hraðaði sér til fundar við forsætisráðherrann.

Þarmeð hófst meðferð sem smámsaman skilaði árangri, og lyfti Bondevik upp úr þunglyndinu. Bondevik segir að í þessum erfiðleikum sínum hafi hann meðal annars lært nauðsyn þess að þora að viðurkenna veikleika og vondar tilfinningar. Forsætisráðherrann hefur hlotið mikið lof fyrir að fjalla svo hreinskilnislega um veikindi sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×