Erlent

Bretar vilja samkomulag til framtíðar

Bresk stjórnvöld leggja áherslu á að nýr samningur um losun gróðurhúsalofttegunda verði tilbúinn eigi síðar en árið 2008. Kyoto-bókunin um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda gildi aðeins til ársins 2012.

Sir Nicholas Stern, fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, spáir alheimskreppu verði ekkert gert til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda í nýrir skýrslu fyrir bresk stjórnvöld sem birt var í gær.

Bretar leggja mikla áherslu á að nýtt samkomulag um losun gróðurhúsalofttegunda sem gert verði í samvinnu við átta helstu iðnríki heims og fimm stærstu þróunarríkin.

Gordons Brown, fjármálaráðherra Breta, leggur til að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu um þrjátíu prósent fyrir árið 2020 og um að minnsta kosti sextíu prósent fyrir árið 2050. Stefnt verði að því að fimm prósent allra bíla í Bretlandi gangi fyrir vistvænu eldsneyti árið 2010.

David Miliband, umhverfisráðherra Breta, mun, að sögn Sky fréttastofunnar, hafa undirbúið áætlun sem lekið hefur verið í breska fjölmiðla. Þar eru lagðir til skattar á eldsneyti og flugmiða því bílar og flugvélar mengi einna mest.

Bretar ætla að senda Stern til Ástralíu, Bandaríkjanna, Indlands og Kína til að kynna nýja skýrslu sína nánar.

Ástralir gefa lítið fyrir niðurstöður Sterns. Stjórnvöld þar segja megnunarskatta aðeins hækka orkuverð til neytenda, þar á meðal almennings og því muni störf færast frá Ástralíu til annarra ríkja. Peter Costello, fjármálaráðherra Ástralíu, segir að ef Ástralir myndu loka öllum orkuverum í Ástralíu í dag myndu Kínverjar opna jafn mörg, ef ekki fleiri innan árs.

Fulltrúar 189 ríkja heims koma saman til árlegs fundar um Kyoto-bókunina í Næróbí í Kenía í næstu viku. Ætla má að skýrsla Sir Nicholas Sterns, hagfræðings verði þar til umræðu. Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, sækir fundinn fyrir hönd Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×